Geir Svansson : Himnuminni
Verk Þóru Sigurðardóttur í Knabstrup Kulturfabrik, Danmörk, 2003
Fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar litið er yfir verk Þóru Sigurðardóttur á sýningunni Physical Recollections er ‚himna‘. Það sem skilur að og verndar, og um leið það sem snertir og tengir: Himnurnar á gólfinu með ‚innyflum‘ sínum og útvexti, “skinnin” á veggjunum (eða kortlagning yfirborðs), hár- og fituflögurnar á baðvatninu í vídeóinu – þetta eru snertifletir okkar við hið ‚harða‘ umhverfi. Það er auk þess í himnunni (hörundinu, yfirborðinu) sem minnið býr: snertingin, í gegnum viðkomu, þeffæri, sjón eða heyrn, miðlar upplifuninni inn í minnið.
Húsið (heimkynnin) – heimili hins munaða – með öllum sínum áþreifanlegu snertiflötum er líka óður til minninga, og endurminninga, um áferð, þykkt, litbrigði, lög, lykt og undirtóna sem sytra inn í minnið í gegnum húð og himnur í eyra og auga. Sýndar(himnu)minni.
‚Hústextarnir‘ sem varpað er upp draga ekki aðeins athyglina að veröldinni sem við skynjum, heldur einnig að hvötum okkar, þrám og þörfum. Flestar frumþarfir manneskjunnar eiga hér fulltrúa, hver í sínum texta: næring, svefn og skjól, en ekki síður þarfir okkar og þrár á sviði fagurfræði, vitsmuna og siðferðis.
Verkin á veggjunum, á gólfinu og í loftinu (hljóðin) vísa í eilífa togstreitu náttúru og menningar, hugar og líkama. Hin ‚lægri‘ innyfli, sem minna á líffæri eða mat, með eða án himnu, mynda hér grunn og draga fram andstæður í sjálfum sér og öðrum verkum, þar sem samræmi kann að leynast.
Og áferð ysta lagsins gefur ekki aðeins aðgang að minninu í gegnum húð og himnu – himnan og húðin setja líka mark sitt á (raunverulegt) yfirborð og skrásetja þannig viðkomu okkar við það og í því. Leifarnar í baðvatninu eru ekki bara óskilgreind húðfita og hár, heldur búa þær yfir upplýsingum um hver við erum, hver við vorum og hver við gætum orðið. Þannig erum við eitt með yfirborðinu – í djúpum skilningi – eitt með hinum harða veruleika, veröldinni, náttúrunni. Hinn sí(ó)breytilegi ómur vatnsins (og tímans) myndar undirtón eilífðar (og eðlisfræði?), líka án trúarlegra yfirtóna.
Mælikvarðarnir í verkum Þóru lyfta fram þeim yfirborðslögum sem við mætum daglega og skynjum, en gefum ekki alltaf meðvitaðan gaum. ‚Slétt‘ gólf reynist margbreytilegt, næstum mynstrað, og minnir á kort af stjörnum himinsins. Alheimurinn er (líka) í snertiflötunum, himnunni, húðinni.
Minni og (endur)minningar í verkum Þóru ljá upplifun okkar af veruleikanum á vissan hátt siðferðilega vídd og þar – rétt eins og í himnunni, hárinu og hamnum – lúra gagnleg gögn og pælingar um ábyrgð, handa komandi kynslóðum …